Um KFS

Knattspyrnufélagið Framherjar-Smástund, eða KFS eins og það er nefnt, var stofnað 7. september árið 1997 við sameiningu tveggja 3. deildar félaga hér í Vestmannaeyjum, Íþróttafélagsins Framherja og Knattspyrnufélagsins Smástundar. Bæði þessi félög eru enn til í dag, en keppt hefur verið undir þeirra nöfnum í Íslandsmóti innanhúss, auk þess sem leikmenn KFS eru skráðir í annað hvort þessara félaga. Ástæðuna má rekja til þess að KFS er ekki félag innan ÍSÍ og því ekki hægt að skrá leikmenn í félagið. Sögu þessara tveggja félaga má rekja allt aftur til ársins 1990. Bæðin liðin voru stofnuð um veturinn það ár, Framherjar reyndar undir nafninu Amor en undir því nafni var keppt í tvö ár. Til þess að fá inngöngu í ÍSÍ varð að skipta um nafn á félaginu, nafnið Amor fékkst ekki samþykkt þar. Liðin tóku svo þátt í sinni fyrstu keppni 1991 þegar þau tóku þátt í utandeildarkeppninni. Árið 1993 er farið að keppa undir nafni Framherja og nafnið Amor lagt niður. Bæði liðin, Framherjar og Smástund, tóku þátt í utandeildarkeppninni fram til ársins 1994 en það ár byrjuðu þau að spila í 4. deild. Árið 1997 var deildarkeppninni breytt þannig að 1. deild varð að Úrvalsdeild og 4. deild því að 3. deild. Árið 1997 spiluðu Framherjar og Smástund saman í riðli, en fram að þeim tíma höfðu þau alltaf spilað í sinn hvorum riðlinum í 4. deild. Þetta má segja að hafi sparað hvoru félagi eina ferð uppá land, en ferðakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn hjá félögum í Vestmannaeyjum. Árið 1998 er svo fyrsta árið sem spilað er undir merkjum KFS í 3. deildinni.

Það má segja að það hafi verið full þörf á að halda úti liði í neðri deildum hér í Vestmannaeyjum. Hér eru margir sem hafa gaman að spila fótbolta en treysta sér ekki að einhverjum sökum til að æfa með meistaraflokki ÍBV. Á einu tímabili er félagið að nota u.þ.b. 35-40 leikmenn sem sýnir vel þörfina fyrir að halda úti svona félagi. 
Dæmi eru um það að leikmenn hafa byrjað hjá Framherjum eða Smástund og farið svo og leikið með aðalliði ÍBV. Svo hafa leikmenn sem hafa hætt hjá ÍBV af einhverjum orsökum, komið yfir og styrkt leikmannahópinn verulega, hafa getað miðlað af reynslu sinni. KFS hefur í gegnum tíðina átt ágætt samstarf við knattspyrnudeild ÍBV, leikmenn ÍBV sem hafa lent í meiðslum hafa fengið að spila til að koma sér í leikform. Einnig hafa ófáir æfingaleikirnir verið spilaðir, bæði við meistaraflokk ÍBV og 2.flokk. Þetta hefur sparað félögunum ferðir uppá land til að undirbúa sig fyrir Íslandsmót. Árið 2001 var svo gengið ennþá lengra í þessu samstarfi þegar samþykktir voru á ársþingi KSÍ svokallaðir venslasamningar. Það gerði félögum í efstu tveimur deildunum kleift að gera venslasamning við félög í neðri deildum og gátu þá leikmenn beggja liða gengið á milli allt tímabilið. ÍBV og KFS gerðu með sér slíkan samning og voru menn sammála um að þetta hefði verið báðum liðum til góða. Árið eftir var þessi samningur svo felldur úr gildi vegna nýrra reglna frá UEFA um félagaskipti leikmanna.

Árið 2002 var það besta frá upphafi í sögu KFS og forvera þess. Félagið gerði sér lítið fyrir og sigraði 3. deildina eftir einn mest spennandi úrslitaleik síðari ára gegn Fjölni. Endaði leikurinn í vítaspyrnukeppni eftir dramatískar lokamínútur bæði í venjulegum leiktíma og framlengingu. Fyrsta árið í 2. deild, árið 2003, var nokkuð erfitt, endaði liðið í 8. sæti en samt 11 stigum frá fallsæti. Annað árið er oft talið erfiðara en það fyrsta og sú var raunin hjá KFS, liðið endaði í neðsta sæti og féll í 3. deild. Hefur liðið leikið í 3. deild síðan.

Nánast frá upphafi hefur ein helsta tekjulind félagsins verið öflug getraunastarfsemi sem hefur gert það að verkum að leikmenn hafa ekki þurft að greiða fyrir ferðir í leiki. Á móti kemur að leikmenn tippa í getraunum sem er nokkurs konar árgjald, en þeir hafa þó alltaf þann möguleika að fá vinning og ná inn fyrir kostnaði.
Hin síðari ár hefur félagið haldið úti öflugu starfi í Reykjavík þar sem nokkuð af leikmönnum félagsins hafa haldið þangað til náms. Því hefur félaginu haldist vel á leikmönnum og í gegnum starfið í Reykavík náð í nýja öfluga leikmenn. Því hefur oft á tíðum nokkur hópur leikmanna þurft að koma til Eyja í heimaleiki liðsins.

Stjórn félagsins skipa:
Óðinn Steinson, formaður
Hjalti Kristjánsson, framkvæmdastjóri
Hreggviður Ágústsson, ritari

Næst á dagskrá

 

Auglýsingar

Tengill á ksi.is

 
Riðill og leikir KFS 2023
á síðu KSÍ