Upphitun: KFS mætir Kára á Hásteinsvelli um Sjómannadagshelgina

04.06.2015
Landkrabbarnir í KFS láta ekki sitt eftir liggja í baráttu sjómanna fyrir betra lífi en þeim til heiðurs hefur félagið ákveðið að færa leik sinn um helgina yfir á sjálfan Hásteinsvöll. KFS mætir Kára í sannkölluðum toppbaráttuleik í þriðju deildinni á laugardag en flautað verður til leiks klukkan 12:30.

Fyrir leik liðanna er Kári í þriðja sæti deildarinnar með 7 stig en KFS situr í því fjórða með 6 stig.

 

Kára-menn eru leikmönnum KFS óneitanlega kunnugir. Þessi lið mættust eftirminnilega í lok síðasta tímabils þegar Kári hafði betur í tveggja leikja umspili um sæti í úrslitum fjórðu deildar. Í framhaldinu mættu Akurnesingar Álftanesi í úrslitum fjórðu deildar þar sem fulltrúalið forseta Íslands hafði betur. Bæði þessi lið fóru þrátt fyrir allt upp í þriðju deildina, ásamt auðvitað KFS - sem er önnur og löng saga þar sem bæði Grundarfjörður og Sepp Blatter koma við sögu.

 

Þjálfari Kára er enginn annar en Skagamaðurinn Sigurður Jónsson en sá magnaði fyrrum leikmaður Sheffield Wednesday, Örebro og ÍA hefur meðal annars afrekað það að skora fyrir enska úrvalsdeildarliðið Arsenal á sínum ferli.

 

Það sem Sigurður hefur hins vegar ekki afrekað er að halda uppi heilbrigðiskerfi heils bæjarfélags, greinandi eyrna- og lungnabólgur, nýrnabilanir og nystagmus. Skrifandi upp á prednisolone, augmentin, flagyl og phenergan hægri vinstri í frístundum sínum frá fótbolta.

 

En hvað um það.

Skoðum nokkrar skemmtilegar staðreyndar í tengslum við leik þessara liða.

 

-Knattspyrnufélagið Kári var endurvakið árið 2011 en félagið dregur nafn sitt af Kára Þorleifssyni, fyrrverandi vallarstjóra í Vestmannaeyjum. Einar Kristinn Kárason, einn leikmanna KFS, er einmitt sonur Kára.
-Markahæsti leikmaður þriðju deildar þegar þetta er skrifað er Fjalar Örn Sigurðsson, leikmaður Kára. Hann er fæddur árið 1994 líkt og Jóhann Norðfjörð, Dakota Fanning, Halldór Páll Geirsson og Justin Bieber. Fjalar á ættir sínar að rekja til Vestmannaeyja en hann ku vera kviðmágur Friðriks Más Sigurðssonar, leikmanns KFS.
-Farid Zato, sem spilaði 21 leik fyrir KR í fyrra, er skráður leikmaður Kára. Spili hann heill heilsu í þriðju deildinni yrði hann svokallaður „svindkall“.
-Ef einungis mörk skoruð í Vestmannaeyjum á þessu tímabili yrðu talin væri staðan í þriðju deildinni önnur. KFS sæti þá á toppi deildarinnar með þrjú stig, ásamt KFR, en Kári á botninum með núll.
-Jóhannes Harðarson, miðjumaður KFS, er eins og flestir vita fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu. Hann er sömuleiðis Skagamaður. Það sem færri vita er sú staðreynd að Jóhannesi var bolað í burtu ofan af Skaga. Hann er sagður hafa barist hatrammri baráttu gegn framkvæmdum í Hvalfirðinum, þar sem síðar risu göng. Siggi Jóns, þjálfari Kára, var aftur á móti helsti talsmaður já-liða á þessum tíma. Jóhannes flúði til Hollands þar sem hann hugðist vinna á bar en hverfisliðið MVV Maastricht fékk Jóhannes til að yfirstíga vonbrigði sín gagnvart Akranesbæ og lagði grunninn að farsælum ferli Jóhannesar í Noregi, undir merkjum IK Start. Jóhannes hyggst nú útkljá þetta leiðinlega mál um helgina, inná vellinum, gegn Skagaliðinu Kára sem óneitanlega kemur til með að nýta sér Hvalfjarðargöngin á ferðalagi sínu til Eyja. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þeir Jóhannes og Sigurður takist í hendur um helgina.

Næst á dagskrá

 

Auglýsingar

Tengill á ksi.is

 
Riðill og leikir KFS 2023
á síðu KSÍ