KFS vs Reynir á morgun, laugardag

11.09.2015
Jæja góðir hálsar, á morgun laugardaginn 12. september taka drengirnir í KFS á móti Sandgerðingum á Hásteinsvellinum í Vestmannaeyjum. Þetta mun verða síðasti leikur tímabilsins og ætla bæði lið sér að sjálfsögðu sigur. Reynismenn geta unnið sér sæti í annari deild með sigri og ætla eyjamenn að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að það gerist.

Strákarnir í KFS fóru í ferðalag síðustu helgi og spiluðu tvo leiki á laugardag og sunnudag. Þeir fengu lánaðan bíl frá ÍBV enda gott samstarf þar á milli, þegar bíllinn átti nokkra kílómetra í Staðarskála þá fór viftureimin og rann bíllinn síðustu metrana að skálanum. Dr. Hjalti, Jón bílstjóri og Njáll formaður fóru á fullt að reyna að redda þessu og endaði með því að strákarnir tóku strætó á Akureyri. Daginn eftir var svo keyrt á Húsavík og spiluðu strákarnir við Völsung, en þeir eru í öðru sæti deildarinnar og hefðu getað tryggt sig upp um deild með sigri. Eyjamenn tóku það ekki í mál og sigruðu leikinn 1-2. (Heyrst hefur að Einar Kristinn sé ennþá að fagna markinu sínu enda skoraði drengurinn eftir skot fyrir aftan miðju, hann pantaði sér ferð til útlanda og hefur ekki sést síðan)....Eftir leik var að sjálfsögðu fagnað vel og fóru menn saman út að borða og svo í keilu. Næst var slakað á og menn undirbjuggu sig hver á sinn hátt fyrir næsta leik. (Heyrst hefur að Halldór Páll hafi gleymt markmannshönskunum sínum þegar hann fór og fékk sér Brynjuís. Þeir fundust þó fyrir aftan kirkjuna á Akureyri).. Daginn eftir fóru strákarnir á Grenivík. Þeir áttu erfitt uppdráttar og fengu fljótlega á sig tvö mörk í leiknum. Þeir komu sér svo vel inn í leikinn en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir úrvalsfæri. Magni sigraði leikinn og tóku þeir við titlinum í lok leiks. Óskar KFS þeim til hamingju með titilinn.
 

Myndir: Fótbolti.net
Það má þó segja að strákarnir hafi staðið sig vel í þessari ferð og eiga hrós skilið. Við viljum biðja alla sem geta að mæta á Hásteinsvöllinn á morgun og styðja strákana til sigurs í þessum síðasta leik tímabilsins.
 
Bestu kveðjur og áfram KFS!
 
 

Næst á dagskrá

 

Auglýsingar

Tengill á ksi.is

 
Riðill og leikir KFS 2023
á síðu KSÍ