„Vil meina að ég eigi átta góð ár eftir á meðal þeirra bestu“

26.05.2015
- Yngvi Bor blæs á sögusagnir
 
Sá orðrómur að Yngvi Magnús Borgþórsson sé að snúa aftur „heim“ í raðir KFS-manna eftir tæplega tíu ára fjarveru fer nú um netheima líkt og eldur í sinu. Stuðningsmenn KFS vilja ólmir fá goðsögnina aftur í sínar raðir en Yngvi lék á sínum tíma vel yfir 100 leiki með félaginu og skoraði í þeim 50 mörk.

Yngvi, sem varð fertugur í marsmánuði, hefur ekki misst af æfingu hjá ÍBV síðan hann byrjaði að æfa aftur með liðinu árið 2007. Árið 2001 til 2006 gerði hann garðinn eftirminnilega frægan hjá KFS en árin ´96 (Víkingur R) og ´97 (Dalvík) reyndi Yngvi fyrir sér utan póstnúmersins 900. Ferillinn hófst hins vegar árið 1993 þegar hann spilaði í Getraunadeild karla, þá efsta deild hér á landi, undir merkjum ÍBV.

 

Vangaveltur stuðningsmanna KFS eru bæði eðlilegar og ekki síst rökréttar. Yngvi hefur nefnilega ekki náð að festa sig almennilega í sessi hjá ÍBV síðan árið 2010, þegar hann kom við sögu í sextán leikjum hjá liðinu. Síðan hafa liðið fimm löng ár. Yngvi hefur þó fulla trú á því að „sinn tími muni koma“ aftur hjá bandalaginu og vitnar þar í lesbíuna Jóhönnu Sigurðardóttur:

 

Ég hef aldrei verið í betra standi, í alvöru. Nú gengur hvorki né rekur hjá ÍBV í deildinni og bæði vörnin og miðjan hafa verið... jahh, ætli það sé ekki best að segja sem minnst. Ég vil allavega meina að ég eigi góð átta ár eftir á meðal þeirra bestu og þá er ég að sjálfsögðu að tala um Pepsi-deildina. Svo þekki ég líka Tryggva aðstoðarþjálfara mjög vel og svo er Jói þjálfari topp maður. Ég myndi segja að þetta væri bara tímaspursmál. Ég útiloka auðvitað ekkert KFS. Ég á félaginu margt að þakka. En í hreinskilni sagt þyrfti KFS að komast upp í Pepsi-deildina ætli ég að kvitta undir félagsskipti þangað. Þeir hafa, eins og ég segi, einhver átta ár til þess,

segir Yngvi og blæs þar með á umræddar sögusagnir um endurkomu hans í KFS, í bili að minnsta kosti. Eins og alþjóð veit leikur KFS nú í 3. deildinni en eftir tvær umferðir er liðið með þrjú stig. Útisigur gegn Álftanesi en tap heima gegn KFR.

 

Líkt og áður hefur komið fram hafa stuðningsmenn KFS verið duglegir að tjá sig um málið en heitar umræður hafa meðal annars skapast á samfélagsmiðlinum Twitter.

 

Winger789 skrifar:

„Af hverju skiptir hann ekki bara yfir í KFS en heldur áfram að æfa með ÍBV? Finnst honum ekki gaman að spila fótbolta?  #KFS  #kodduheim  #yngviboring  #borvélin

 

Baxterinn skrifar:

„Ég hef það frá nokkuð áreiðanlegum heimildum að Yngvi vilji ekki skipta yfir í KFS vegna ákveðins leikmanns sem hefur verið í hóp hjá KFS á þessu tímabili“  #yngviboring  #KFS  #ekkivinir

 

Uglan skrifar:

„Ég vona svo innilega að minn maður sjái ljósið og kvitti á pappírana fyrir næsta glugga“  #yngviKFS  #KFS  #goðsögn

 

Þess ber að geta að félagsskiptaglugginn á Íslandi er nú lokaður. Glugginn opnar aftur á nýjan leik þann 15.júlí.

 

Næst á dagskrá

 

Auglýsingar

Tengill á ksi.is

 
Riðill og leikir KFS 2023
á síðu KSÍ