Hópferð á leik KFS og Reynis í Sandgerði – Ferðalýsing

10.07.2015
Eins og allir Vestmannaeyingar vita mæta lærisveinar doktors Hjalta Kristjánssonar í KFS spræku liði Sandgerðinga á morgun klukkan 14:00, laugardag. Um er að ræða leik í 9. umferð þriðju deildar karla en fyrir leik munar fjórum stigum á liðunum, Reynismenn sitja í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig en KFS í því fimmta með 12 stig. KFS á þó einn til tvo leiki inni á önnur lið í deildinni. Sjá stöðutöfluna hér.

Stjórn KFS hefur fundið fyrir auknum áhuga stuðningsmanna KFS eftir öfluga byrjun liðsins þetta sumarið. Stjórnin hefur því sett saman skemmtilega hópferð á umræddan leik sem enginn stuðningsmaður liðsins ætti að láta framhjá sér fara.

 

Ferðalýsing

Mæting uppá flugvöll Vestmannaeyja 11.7.15 tímanlega klukkan 10:00. Þar bíður okkar 52 sæta einkaflugvél sem Valur Andersen ætlar að fljúga fyrir okkur. Farið verður í loftið 10:30. Einungis handfarangur leyfður. Lent á Keflavíkurflugvelli 11:05. Áætluð mæting í Sandgerði ca 11:45, fer eftir því hvað menn verða röskir. ATH, menn þurfa að redda sér sjálfir á Sandgerði. Við erum búnir að leigja veislusalinn í Reynisheimilinu þar sem hádegismatur verður borinn fram á slaginu 12:15 en Gísli Matthías Auðunsson, Slippmeistari, sér um að grilla ofan í liðið. Drykkir ekki innifaldir. Rúmum klukkutíma síðar röltum við svo öll saman yfir á völlinn þar sem Stalla hú og Fjallabræður hita upp KFS meginn í stúkunni. Lykilatriði að vera tímanlega hér. Haraldur Halldórsson ætlar nefnilega að gera heimildamynd um ferðina og spila þessar 45 mínútur fram að leik miklu máli fyrir myndina. Drónar og vesen. Flautað til leiks 14:00. Stjórn KFS reiknar með að ekkert kosti á leikinn. Þó ekki staðfest því ekki náðist í formann Reynismanna fyrir gerð pakkans. Hann er ekki í Nova. Frír Slots Guld í hálfleik, einn á mann. Eftir leik klukkan 15:50 fáum við að heilsa uppá leikmenn og Ingó Veðurguð tekur lagið inní klefa liðsins, sama hvernig leikar fara. Allir út úr klefanum 16:15, sama hvernig stemmarinn er. Flug frá Keflavíkurflugvelli 17:00, með liðinu. Menn þurfa að redda sér sjálfir út á flugvöll. Flogið á Selfoss. Þar þarf Hjalti læknir að ná í hleðslutækið af tölvunni sinni sem hann gleymdi hjá mágkonu sinnu helgina áður. Flogið frá Selfossi 17:50 og lent í Eyjum 18:05, plús mínus tveir klukkutímar.

 

Verð

215.970 per mann + flugvallaskattur.

 

ATH.

Lágmark 52 einstaklingar (full vél) verða að skrá sig í ferðina.
Fyrstir koma, fyrstir fá. Ef svo ólíklega vill til að ekki náist að manna hópferðina verður hún blásin af.

 

Ef einhverjar spurningar vakna, ekki hika við að hafa samband.
Nánari upplýsingar veita:

Maggi Steindórs, fararstjóri.
Kiddi Gogga, fararstjóri.
Valur Andersen, flugmaður.
Helga Kristín, nýr rektor FÍV.
Haraldur Halldórsson, kvikmyndagerðamaður.

 

Áfram KFS, alltaf, allsstaðar... líka í Sandgerði.

Næst á dagskrá

 

Auglýsingar

Tengill á ksi.is

 
Riðill og leikir KFS 2023
á síðu KSÍ