Kveðjuleikur Tryggva Guðmunds: Ágrip og viðtal - #fyrirTG
22.07.2015En hvernig endaði þessi markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi í KFS?
Árið er 2014.
Þegar ljóst var að staða Tryggva hjá HK var óstöðug í byrjun árs höfðu njósnarar KFS samband við leikmanninn í gegnum svokallaða „secured line“. Grunnurinn að félagsskiptum hans yfir í KFS var svo lagður símleiðis föstudag einn í marsmánuði sama ár. Sjá mynd.
Í framhaldinu fékk Tryggvi leikheimild með félaginu 2. maí og spilaði sinn fyrsta leik rúmlega þremur vikum síðar, þann 25. maí. Þar skoraði hann eitt mark í 1-4 sigri KFS á Ísbirninum í fyrsta leik liðsins í fjórðu deildinni þetta sumarið. Árið átti eftir að verða eftirminnilegt. KFS fór upp um deild eftir að hafa lent í þriðja sæti fjórðu deildar og skoraði Tryggvi alls 16 mörk í 18 leikjum þetta tímabilið. Hann var síðar valinn prúðasti leikmaðurinn á lokahófi félagsins.
Í ár hefur Tryggvi leikið sjö leiki undir merkjum KFS og skorað tvö mörk en leikurinn í kvöld verður hans 26. og jafnframt sá síðasti fyrir KFS. Tryggvi var eðlilega hálf meyr þegar fréttastofa settist niður með leikmanninum á ónefndu kaffihúsi nú í morgunsárið.
„Æji, maður hefði að sjálfsögðu viljað klára slaginn þetta tímabilið með félögunum hérna í KFS en svona er boltinn. Hann spyr ekki um tímasetningar. Það er einfaldlega ekki hægt að segja nei þegar klúbbur eins og Njarðvík hefur samband,“
segir Tryggvi sem óvænt viðurkennir að draumur sé hálfpartinn að rætast með þessum félagsskiptum.
„Móðurbróður afa hálfsystur minnar, sem ég man nú ekki alveg hvað hét, var varagjaldkeri í annari stjórn félagsins, þeirri sem tók við af stofnendum félagsins. Ég hef því alltaf verið með annað augað á félaginu og fylgst mikið með gengi liðsins í gegnum árin. Hann Eddi minn heitinn, nú man ég það, hefði aldrei viljað sjá liðið falla niður í þriðju deildina og ætla ég því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja áframhaldandi veru liðsins í deild þeirra bestu,“
útskýrir Tryggvi og fær sér meira kaffi, enda leikur í kvöld. Hann útilokar þó ekki fleiri mínútur undir merkjum KFS áður en ferli hans líkur.
„Það er aldrei að vita. Ég held að það sé best að lofa sem minnstu bara. Ég er sko fæddur árið nítjánhundruð sjötíu og fokkings fjögur.“
Sumsé. Stór stund á Hvolsvelli í kvöld þar sem okkar maður leikur sinn síðasta leik fyrir KFS. Fréttastofa og Vestmannaeyjabær hvetja þá sem ætla að leggja leið sína á Hvolsvöll í kvöld að mæta í svörtu. Þeir sem ekki hafa tök á slíku er beint á notkun sorgarbanda. Myllumerkið #fyrirTG er jafnframt byrjað að "trenda" á samskiptamiðlinum Twitter og hvetjum við fólk til að taka þátt í því.
Leikurinn í kvöld hefst á slaginu 18:00 á SS-vellinum á Hvolsvelli.
Áfram KFS, alltaf, allsstaðar... líka á Hvolsvelli.
#fyrirTG